André Onana, lands­liðs­mark­vörður Kamerún mun ekki spila fleiri leiki með liðinu á Heims­meistara­mótinu í knatt­spyrnu sem fer þessa dagana fram í Katar. Onana vildi ekki fara eftir fyrir­mælum lands­liðs­þjálfara Kamerún og nú hefur verið greint frá því að hann hafi yfir­gefið her­búðir liðsins í Katar.

Onana, sem er mark­vörður Inter Milan á Ítalíu varði ekki mark Kamerún í leik liðsins gegn Serbíu á HM í dag, þá var hann ekki í leik­manna­hópi liðsins.

The At­hletic heldur því fram að Onana hafi ekki viljað fara eftir fyrir­mælum lands­liðs­þjálfara Kamerún, Rigobert Song, sem vildi að Onana tæki færri á­hættur með boltann og myndi þess í stað sparka boltanum langt upp völlinn.

Fé­lags­skipta­sér­fræðingurinn Fabrizio Roma­no greinir síðan frá því í Twitter­færslu, sem birtist rétt eftir leiks­lok í leik Kamerún og Serbíu, að Onana sé farinn heim frá HM.