Íslenska landsliðið heillaði ekki aðeins sína eigin þjóð með stórleik sínum í gær heldur hefur frammistaða þeirra vakið athygli mjög víða, einkum þó meðal handboltaþjóða.

Ísland hefur átt stærstu bombuna á Evrópumótinu í handbolta, hingað til, að mati sænsks handboltasérfræðings.

Í íþróttafréttum í sænskum miðlum er frammistöðu liðsins gegn ólympíumeisturum Frakka í gær lýst sem einum af óvæntustu úrslitum í sögu Evrópumótsins.

Eins og allir vita lögðu okkar menn Frakka af velli, 29-21, með aðeins 14 leikmenn og allar sínar helstu stjörnur fjarverandi.

„Það virkaði allt, maður fær tár í augun af leik markmannsins, varnarleikurinn vel flæðandi og til framtíðar má segja að við höfum besta leikmann heims í Ómari Inga Magnússyni. Þjálfarinn, Guðmundur Guðmundsson hefur taktíkina alla í fingurgómunum og það er mjög erfitt að svara leikplani liðsins,“ sagði handboltasérfræðingurinn, Martin Frändesjö á sjónvarpsstöðinni TV10 í Svíþjóð.

Í frétt á vef Sportbladed, íþróttaútgáfu sænska miðilsins, Aftonbladed, segir að Ísland hafi vakið mikla athygli í riðlakeppninni þegar þeir komust upp úr jafnasta riðli mótsins með fullt hús stiga.

Fram kemur að Ísland hafi oft staðið sig frábærlega vel í upphafi móts en svo meira eða minna hrunið til grunna að riðlakeppninni lokinni.

Rakið er í fréttinni hvernig kórónuveiran hafi fest klóm sínum í leikmenn liðsins áður en fyrsti leikur milliriðilsins hófst. Þrír leikmenn hafi greinst jákvæðir, þar á meðal markmaður liðsins, Björgvin Páll Gústafsson.

Ísland hafi tapað fyrsta leiknum, gegn heimsmeisturum Danmörku.

Þá lýsir blaðið óförum Íslands í aðdraganda leiksins gegn Frakklandi þannig að veiran hafi haldið áfram að herja og náð taki á fyrirliðanum og stórstjörnunni Aroni Pálmasyni, „maskínunni“ Gísla Kristjánssynni og markavélinni Bjarka Má Elíssyni.

„En Íslendingarnir létu veiruna ekki stöðva sig heldur mættu til leiks og óku yfir frakkana.“

"Íslenska liðið, með sjö leikmenn fjarverandi, gat ekki einu sinni stillt upp fullu liði, höfðu aðeins fjórtán menn í höllinni í stað sextán eins og heimilt er,“ heldur fréttin áfram.

„En Íslendingarnir létu það ekki á sig fá, heldur mættu til leiks og völtuðu yfir Frakkana. Hægri hornamaðurinn Ómar Ingi Magnússon var óstöðvandi, með 10 mörk í 13 skotum og ungi varamarkmaðurinn, Viktor Hallgrímsson stöðvaði flest sem að honum var beint.“