Sænski milljarðamæringurinn Daniel Ek er með tilboð í burðarliðnum á meirihluta hlutabréfa í enska knattspyrnufélaginu Arsenal en hann hyggst fá goðsagnirnar hjá félaginu, Thierry Henry, Dennis Bergkamp og Patrick Vieira í hluthafahópinn.

Ek, sem er metinn á tæpa fimm milljarða dollara er einn af stofendnum og eigendum tónlistarveitunnar Spotify, hyggst kaupa Arsenal af bandaríska fjárfestinum Stan Kroenke sem hefur fallið í ónáð hjá stuðningsmönnum félagsins eftir áform sín um að vera stofnaðili Ofurdeildarinnar.

„Ég hef stutt Arsenal frá barnæsku og ef félagið er til sölu er ég reiðubúinn að setja fram tilboð," segir Ek í twitter-færslu sinni en það var sænski sóknartengiliðurinn Andreas Limpar sem var rótin að því að Ek byrjaði að halda með Skyttunum.

Josh Kroenke, stjórnarformaður Arsenal, segir hins vegar að Arsenal sé ekki til sölu eins og sakir standa.