Temmilegur skammtur af hroka og húmor varð til þess að ferskir vindar blésu um helstu deildir heims með tilkomu Mourinho, hann setti markið hátt og náði árangri. Titlaði sjálfan sig „Hinn einstaka“, gælunafn sem fór honum vel.
Sparkspekingurinn Jóhann Már Helgason er stuðningsmaður Chelsea. Hann segir Mourinho hafa breytt miklu með komu sinni til félagsins 2004.
„Móri, eins og ég vandi mig strax á að kalla hann, kom með ákveðinn metnað og hroka sem Chelsea hafði vantað. Hann sparkaði upp hurðinni á Brúnni og sagði á fyrsta blaðamannafundinum að nú hefði Chelsea einstakan stjóra. Hann þorði að gera kröfur og þorði að segja það upphátt að Chelsea ætti að vinna deildina. Hann kom með sigurhugarfar í félag sem hafði ekki unnið deildina í 50 ár.“
Chelsea vann ensku úrvalsdeildina á fyrstu leiktíð Mourinho. „Maður áttaði sig mjög fljótlega á því að það væri eitthvað sérstakt að fara að gerast. Liðið byrjaði frábærlega, hann fann strax mjög sterkan kjarna af leikmönnum sem voru bókstaklega til í að henda sér fyrir liðsrútuna fyrir liðið og Móra. Þetta voru John Terry, Frank Lampard, Petr Cech, Didier Drogba og auðvitað Eiður Smári Guðjohnsen. Mourinho breytti leikmönnum eins og Lampard og Terry úr því að vera góðir úrvalsdeildarleikmenn yfir í heimsklassa fótboltamenn. Árangurinn á fyrsta tímabilinu var auðvitað lygilegur,“ segir Jóhann, en þá vann Chelsea deildina örugglega, setti stigamet og fékk aðeins á sig fimmtán mörk.
Þegar Jóhann var beðinn um að nefna sína uppáhaldssögu af hinum skrautlega Mourinho kom margt upp í hugann. „Fyndnasta sagan er auðvitað þegar hann faldi sig í þvottagrindinni til að geta hitt liðið í hálfleik þegar hann var í banni gegn FC Bayern í 8- liða úrslitum Meistaradeildarinnar,“ segir hann. „Af því sem maður sá beint var þegar hann og hans erkióvinur, Arsene Wenger, lentu hreinlega í áflogum á hliðarlínunni í leik Chelsea og Arsenal árið 2014. Móri er miklu minni en Wenger en lét það ekki stoppa sig og ýtti honum úr boðvanginum.“

4
Mourinho hefur fjórum sinnum verið valinn besti þjálfari heims og það fyrir störf sín hjá fjórum mismunandi félagsliðum.
60%
Portúgalinn státar af 60% sigurhlutfalli í ensku úrvalsdeildinni en af þeim 363 leikjum sem hann hefur stýrt í deildinni vann hann 217.
100%
Knattspyrnustjórinn knái er sannkallaður Evrópumeistari enda aldrei tapað úrslitaleik í Evrópukeppnum félagsliða, 100% sigurhlutfall.
6
Mourinho er altalandi á sex mismunandi tungumálum. Portúgölsku, ensku, katalónsku, ítölsku og frönsku.

Tuttugu og sex titlar til þessa
Porto 2002–2004:
- 1x Meistaradeild Evrópu
- 2x Portúgalska úrvalsdeildin
- 1x Evrópubikarinn
- 1x Portúgalski bikarinn
- 1x Portúgalski ofurbikarinn
Chelsea 2004–2007, 2013–2015:
- 3x Enska úrvalsdeildin
- 1x Enski bikarinn
- 3x Enski deildarbikarinn
- 1x Samfélagsskjöldurinn
Inter Milan 2008–2010:
- 1x Meistaradeild Evrópu
- 2x Serie A 1x Ítalski bikarinn
- 1x Ítalski ofurbikarinn
Real Madrid 2010–2013:
- 1x La liga
- 1x Spænski bikarinn
- 1x Spænski ofurbikarinn
Manchester United 2016–2018:
- 1x Evrópudeildin
- 1x Enski deildarbikarinn
- 1x Samfélagsskjöldurinn
Að lokum má sjá nokkur af fjölmörgum skemmtilegum ummælum Mourinho í gegnum tíðina
Ef það yrði gerð bíómynd um líf mitt held ég að George Clooney ætti að leika mig. Hann er frábær leikari og eiginkona mín telur að hann væri tilvalinn í hlutverkið.
Ef félagið ákveður að reka mig vegna slæmra úrslita er það bara hluti af leiknum. Ef það gerist verð ég milljónamæringur og fæ annað starf nokkrum mánuðum síðar.
Það skiptir ekki máli hvernig við spilum. Ef þú ert á Ferrari og ég á litlum bíl þarf ég að brjóta stýrið þitt eða setja sykur í bensíntankinn þinn til að sigra.