Tom Brady tilkynnti rétt í þessu að hann væri búinn að ákveða að leggja skóna á hilluna fyrir fullt og allt. Brady er sigursælasti leikmaður NFL-deildarinnar í amerískum ruðningi frá upphafi.

Brady tilkynnti á sama tíma fyrir ári síðan að hann væri hættur til að einbeita sér að því að sinna fjölskyldulífinu en honum snerist hugur stuttu síðar og ákvað hann að taka eitt tímabil enn.

Með Brady í stöðu leikstjórnanda komst Tampa Bay Buccaneers í úrslitakeppni NFL-deildarinnar en féll úr leik í fyrstu umferð úrslitakeppninnar eftir tap gegn Dallas Cowboys.

Það reyndist vera 23. og síðasta tímabil Brady sem lék í tuttugu ár í herbúðum New England Patriots.

Brady hefur unnið sjö meistaratitla, sex þeirra með Patriots og á flest öll met yfir sendingar, snertimörk og sigra í sögu deildarinnar.