Ísland vann sannfærandi 34-23 sigur þegar liðið mætti Rússlandi í annarri umferð í E-riðli á Evrópumótinu í handbolta karla í Malmö Arena í Svíþjóð í kvöld. Eftir góðan fyrri hálfleik var íslenska liðið 18-11 yfir og þegar yfir leik fór liðið með 11 marka sigur af hólmi. Þar af leiðandi hefur Íslands fjögur stig eftir fyrstu tvo leiki riðlakeppninnar og fer áfram í milliriðil lykti leik Danmerkur og Ungverjalands með jafntefli eða sigri ungverska liðsins.

Guðmundur Þórður Guðmundsson, þjálfari íslenska liðsins, ákvað að skipta um hornateymi íslenska liðsins frá sigrinum gegn Dönum en Bjarki Már Elísson og Sigvaldi Björn Guðjónsson hófu leik í stað Guðjóns Vals Sigurðssonar og Arnórs Þórs Gunnarssonar.

Arnór Þór kom hins vegar inn af varamannabekknum og skoraði fyrsta mark leiksins úr vítakasti sem Alexander Petersson náði í eftir rúmlega fjögurra mínútna leik. Bjarki Már stimplaði svo inn í leikinn með marki í kjölfarið.

Sigvaldi Björn skoraði svo sitt fyrsta mark í leiknum þegar hann kom Íslandi í 4-1 eftir tæplega tíu mínútna leik. Alexander kom svo Íslandi í 5-1 með marki úr hraðaupphlafi skömmu síðar. Elvar Örn Jónsson komst svo á blað um miðbik fyrri hálfleiks og breytti stöðunni í 8-3 Íslandi í vil og Sigvaldi Björn kom svo íslenska liðinu sex mörkum yfir.

Aron Pálmarsson var í öðruvísi hlutverki í þessum leik en í sigrinum gegn Danmörku en Rússar tóku hann úr umferð lungann úr leiknum.
Fréttablaðið/EPA

Á þessum tímapunkti höfðu sex leikmenn íslenska liðsins skorað þessi níu mörk en Kári Kristján Kristjánsson var auk fyrrgreindra aðila á meðal markaskoraranna. Elvar Örn skoraði svo sitt annað mark í leiknum og staðan orðin 10-3 fyrir Ísland.

Alexander, Kári Kristján og Janus Daði Smárason skoruðu næstu fjögur mörk íslenska liðsins og staðan var 14-6 þegar rúmlega 20 mínútur voru liðnar af leiknum en Alexander skoraði tvö þeirra og var þar af leiðandi kominn með þrjú mörk í leiknum og var markahæstur á þeim tímapunkti.

Janus Daði sem kom inná í sóknarleik Íslands um miðjan fyrri hálfleikinn skoraði tvö mörk með skömmu millibil og kom íslenska liðinu í 16-8. Þar með höfðu átta leikmenn lagt lóð á vogarskálina við markaskorun íslenska liðsins.

Rússar náðu að minnka muninn í 16-11 undir lok fyrri hálfleiks en leikmenn Íslands tóku þá aftur við sér og staðan var 18-11 í hálfleik. Sigvaldi Björn kom Íslandi sex mörkum yfir með þriðja marki sínum í leiknum og Alexander kom þeirri forystu í sjö mörk með sínu fjórða marki í leiknum. Björgvin Páll Gústavsson varði vel í fyrri hálfleik en hann klukkaði átta bolta á fyrstu 30 mínútum leiksins.

Alexander Petersson var markahæsti leikmaður íslenska liðsins í leiknum ásamt Bjarka Má og Sigvalda Birni með sex mörk.
Fréttablaðið/EPA

Bjarki Már skoraði fyrsta mark seinni hálfleiksins en það var hans þriðja í leiknum. Það var hins vegar smá hikst í sóknarleiknum hjá íslenska liðinu í upphafi seinni hálfleiks og Rússar náðu að minnka muninn í 19-13. Guðmundur Þórður tók leikhlé þegar leikhlé þegar fimm mínútur voru liðnar af seinni hálfleiknum til þess að fara yfir málin og koma skikki á sóknarleikinn.

Það skilaði sér í fimmta marki Alexanders í leiknum og staðan orðin 20-13. Janus Daði bætti svo við sínu þriðja marki í leiknum og Sigvaldi Björn því fjórða þar á eftir og íslenska liðið með átta marka forskot, 22-14. Áfram var vörn Íslands feykilega sterk og leikmenn rússneska liðsins fundu fá svör við henni.

Janus Daði átti góða innkomu í leikinn en auk þeirra þriggja marka sem hann skoraði skapaði hann fjölmörg færi fyrir samherja sína. Til að mynda næsta mark íslenska liðsins sem var það sjötta hjá Alexander. Arnór Þór hélt svo fullkominni nýtingu sinni áfram af vítalíunnni og kom Íslandi í 24-16 og Sigvaldi Björn jók á eymd Rússa með því að koma íslenska liðinu níu mörkum yfir.

Viggó Kristjánsson skoraði svo sitt fyrsta mark fyrir Ísland á stórmóti um miðjan seinni hálfleikinn og staðan þá 26-19. Viggó varð þar níundi leikmaður Íslands til þess að skora í leiknum. Viggó hamraði svo járnið á meðan það var heitt og bætti öðru marki sínu við í næstu sókn íslenska liðsins. Hann fiskaði svo víti í sókninni þar á eftir og Arnór Þór skilaði boltanum rétta leið efitr að hafa brennt af vítinu.

Góð markvarsla Björgvins Páls Gústavssonar var einn af lyklum þess að Ísland bar sigurorð af Rússum.
Fréttablaðið/EPA

Sigvaldi Björn jafnaði svo Alexander sem markahæsta leikmanns íslenska liðsins með sex mörk. Viggó hélt svo áfram að láta til sín taka og skoraði tvö mörk í röð. Ísland var níu mörkum yfir, 31-22 þegar tæpar tíu mínútur voru eftir af leiknum.

Viggó þar með kominn með fjögur mörk í leiknum, jafn mörg og Arnór Þór sem komu á eftir Alexander og Sigvalda Birni sem höfðu látið mest að sér kveða hjá íslenska liðinu. Viktor Gísli Hallgrímsson var kominn inn í íslenska markið þarna og varði þrjú skot á skömmum tíma, þar af eitt vítakast.

Bjarki Már blandaði sér í baráttuna um að enda sem atkvæðamestur hjá Íslandi þegar hann skoraði næstu þrjú mörk íslenska liðsins og kom Íslandi í 34-23. Það urðu lokatölur leiksins. Hann var þá kominn með sex mörk í leiknum líkt og Alexander og Sigvaldi Björn.

Guðjón Valur Sigurðsson var eini leikmaður Íslands sem tók ekki þátt í leiknum en Guðmundur Þórður náði að rúlla íslenska liðinu vel og dreifa álaginu vel. Það gæti komið sér vel þegar Ísland spilar við Ungverja í lokaumferð riðlakeppninnar.

Mörk íslenska liðsins í leiknum: Bjarki Már Elísson 6/2, Alexander Petersson 6, Sigvaldi Björn Guðjónsson 6, Arnór Þór Gunnarsson 4/3, Viggó Kristjánsson 4, Janus Daði Smárason 4, Kári Kristján Kristjánsson 2, Elvar Örn Jónsson 2. Varin skot hjá Íslandi: Björgvin Páll Gústavsson 10, Viktor Gísli Hallgrímsson 6/1.

Danmörk og Ungverjaland mætast svo í seinni leik annarrar umferðarinnar klukkan 19.30. Fyrir þann leik er Ísland á toppi riðilsins með fjögur stig, Ungverjaland í öðru sæti með tvö stig og Danir og Rússar án stiga.