Rúrik Gíslason hefur skrifað undir nýjan tveggja ára samning við þýska B-deildarliðið Sandhausen.

Rúrik gekk í raðir Sandhausen frá Nürnberg í janúar. Hann lék 15 deildarleiki með Sandhausen og skoraði þrjú mörk.

„Ég hlakka til næstu tveggja ára hjá Sandhausen. Ég fann fyrir miklu trausti hér og það hjálpaði mér inni á vellinum,“ sagði Rúrik í samtali við heimasíðu Sandhausen.

Rúrik er nú staddur með íslenska landsliðinu í Rússlandi. Strákarnir okkar æfðu í fyrsta sinn í dag eftir komuna til Rússlands. Fyrsti leikur Íslands er gegn Argentínu á laugardaginn.

Rúrik hefur leikið 47 landsleiki og skorað þrjú mörk.