Rúrik Gíslason, landsliðsmaður í knattspyrnu, er laus allra mála hjá þýska B-deildarliðinu í knattspynu en samningur hans við félagið átti að renna út eftir yfirstandandi leiktíð. Þetta kemur fram í hlaðvarpsþættinum Dr. Football sem kom út í dag.

Rúrik hefur leikið með Sandhausen frá því árið 2018 en hann hefur skorað þrjú mörk í þeim 52 leikjum sem hann hefur spilað fyrir liðið. Vængmaðurinn hefur ekki verið í náðinni hjá þjálfara liðsins á keppnistímabilinu og þá hefur hann átt í deildum við forráðamenn félagsins um greiðslu á launum.

Ekki liggur fyrir hver næsti áfangastaður verður á ferli landsliðsmannsins en Rúrik hefur í nógu að snúast í viðskiptalífinu. Nýverið setti Rúrik á markað óáfengt gin og ræddi á dögunum við Fréttablaðið um það.