Rúnar Kristinsson, þjálfari karlaliðs KR í fótbolta, var með húfu merkta FO í leik liðsins gegn Leikni í Pepsi Max-deild karla í fótbolta í gærkvöldi.

FO er skammstöfun á herferð UN Women sem leit fyrst dagsins ljós þegar UN Women á Íslandi hóf sölu á Fokk ofbeldi armböndum árið 2015.

Síðan þá hefur ýmiss konar Fokk ofbeldi varningur verið framleiddur og seldur til styrktar verkefna UN Women sem miða að því að útrýma kynbundnu ofbeldi. Frasinn hefur á stuttum tíma fest sig rækilega í sessi sem slagorð í baráttunni gegn kynbundnu ofbeldi á Íslandi.

Kynbundið ofbeldi innan knattspyrnuheimsins hefur verið mikið í umræðunni síðustu daga en viðbrögð knattspyrnusambands Íslands, KSÍ, við meintu og staðfestu kynferðisofbeldi leiddi til þess að Guðni Bergsson, formaður KSÍ, lét af embætti og hávær krafa er um að stjórn KSÍ og Klara Bjartmaez, framkvæmdastjóri KSÍ, segi upp störfum.

Rúnar klæddist húfunni til þess að sýna þolendum stuðning sinn á meðan á leiknum stóð og í viðtölum við fjölmiðla að leik loknum.