Aga- og úrskurðarnefnd knattspyrnusambands Íslands, KSÍ, ákvað á fundi sínum fyrr í vikunni að sekta knattspyrnudeild KR um 50.000 krónur vegna ummæla Rúnars Kristinssonar, þjálfara karlaliðs KR. Rúnar lét hafa eftir sér ósæmileg opinber ummæli sem birtust á vefmiðlunum Fotbolti.net og Vísir.is, þann 27. september síðastliðinn að mati aga- og úrskurðarnefndarinnar.

Var um að ræða opinber ummæli sem voru að mati framkvæmdastjóra KSÍ til þess fallin að skaða ímynd íslenskrar knattspyrnu og aga- og úrskurðarnefnd sambandsins taldi að með þeim hafi verið vegið að heiðarleika Ólafs Inga Skúlasonar, leikmanns Fylkis. Rúnar sakaði Ólaf Inga um að hafa hagað sér eins og hálfviti í leik liðanna á Íslandsmótinu og taldi hann hafa svindlað til þess að ná í stig.

Þá var knattspyrnudeild Njarðvíkur sektuð um sömu upphæð fyrir ummæli sem Mikael Nikulásson, þjálfari karlaliðs Njarðvíkur, sem leikur í 2. deildinni lét falla í hlaðvarpsþættinum Dr. Football. Mikael er einn af þáttastjórnefndum fyrrnefnds þáttar.

„Þetta er 100% tveggja leikja bann. [...] Ég mun brenna Laugardalinn persónulega sjálfur ef hann fær ekki tveggja leikja bann, það er bara þannig. Mér er alveg sama, mér er alveg sama, málið er það að Framararnir, ég er náttúrulega gamall Framari, þá bara fer ég með þeim í það. Að sjálfsögðu er þetta tveggja leikja bann,“ eru ummælin sem Mikael viðraði í þættinum og Njarðvík fær sekt sína fyrir.