Hjólreiðamaðurinn Rún­ar Örn Ágústs­son keppti í gær í tímatöku heims­meist­ara­mót­inu í götu­hjól­reiðum í Fland­ers í Belg­íu.

Rún­ar Örn kom í mark á tím­an­um 55:55 mín­út­ur en það er besti árangur íslensks hjólreiðamanns á heimsmeistaramóti. Sá tími skilaði Rúnari Erni í 46. sæti en meðal­hraði hans var 46,46 km/​klst. Í tíma­töku karla eru hjólaðir rúm­lega 43 kíló­metr­ar.

„Rún­ar gaf allt í þessa keppni og er sátt­ur með eig­in frammistöðu,“ seg­ir í til­kynn­ingu frá Hjól­reiðasam­bandi Íslands.

Í dag keppa þær Ágústa Edda Björns­dótt­ir og Bríet Kri­stý Gunn­ars­dótt­ir í tíma­töku kvenna en þetta er í þriðja sinn sem Ísland á kepp­end­ur á Heims­meist­ara­mót­inu í götu­hjól­reiðum.

Alls eru fimm íslenskir keppendur á mótinu ytra til að taka þátt fyrir okkar hönd. Á morgun tekur Kristinn Jónsson þátt í götuhjólakeppninni (U-23) þar sem hjólað verður frá Antwerpen til borgarinnar Leuven þar sem hjólaðir verða fjórir hringir. Samtals 160 kílómetrar með rúmlega 1.000 metra hækkun.

Á miðvikudaginn er svo komið að götuhjólakeppni kvenna þar sem hjóluð verður sama leið og U-23 keppnin. Þar taka þátt fyrir Íslands hönd þær Ágústa Edda Björnsdóttir, Bríet Kristý Gunnardóttir og Elín Björg Björnsdóttir.