Sauðkrækingurinn Rúnar Már Sigurjónsson staðfestir í samtali við Fotbolti.net í kvöld að hann sé á förum frá svissneska félaginu Grasshoppers þegar samningur hans rennur úr í sumar.

Rúnar er á þriðja ári sínu í Sviss eftir að hafa áður leikið með Sundsvall í Svíþjóð og hefur leikið með Grasshoppers og St. Gallen í Sviss.

Það gengur lítið sem ekkert hjá félaginu þessa dagana sem hefur ekki unnið leiki í fjóra mánuði og situr í neðsta sæti deildarinnar. Rúnar er nýfarinn af stað á ný eftir meiðsli.

Hann segist vera á förum frá félaginu í sumar og segir það ekki ljóst hvert hann fari en hann útiloki ekki að fara í lið utan Evrópu.

„Það er 100% að ég muni skipta um félag. Minn tími þarna er kominn. Ég er samningslaus og þarf breytingu," segir Rúnar í samtali við Fotbolti.net og segist ekki vera kominn með næsta áfangastað.

„Ég veit það ekki. Ég myndi ekki segja þér það ef ég vissi það en það er ekki neitt klárt eða komið á það stig að hausinn sé kominn þangað. Ég tel líkur á því að ég muni færast fjær Íslandi en það sem er núna. Maður skoðar stærri deildir en Sviss í Evrópu og svo gæti maður farið utan Evrópu."