Þegar langt var liðið á leikinn var Rúnari vikið af velli fyrir að brjóta á Patreki Stefánssyni leikmanni KA. Rúnar ritar um málið á Facebook síðu sinni og er langt því frá sáttur með vinnubrögð HSÍ.

„Á sunnudaginn síðasta fékk ég rautt og í kjölfarið blátt spjald í leik með ÍBV. Spjald sem ég í augnablikinu hélt að myndi ekki vera því ég steig bara fram og mætti manni á mikilli ferð og náði að mæta með vinstri hendi og hitta vel í skothendina, nánar tiltekið öxlina í þann mund sem hann skýtur. Því miður náði hann að skora fyrir mig og svo liggur hann eftir með miklum tilþrifum. Ég gerði mig strax klárann í hraða miðju en sé svo að allt KA liðið er með mikil læti og tilþrif," skrifar Rúnar í pistli sínum.

Rúnar taldi að fríkast yrði dæmt og var brugðið þegar hann sá spjaldið fara á loft. „Ég trúði því aldrei að þetta væri eitthvað meira en fríkast en hugsaði svo betur og í ljósi þess að eftir skotið fer framhandleggurinn á mér líklegast aðeins undir kjálkann á honum eftir snertinguna við öxlina að þetta væru líklegast tvær mínútur. Rautt spjald var niðurstaðan og mér fannst það mjög þung refsing fyrir lítið brot. “

Ræddi við dómarana:

Að leik loknum fór Rúnar og ræddi við dómarana. „Eftir leik spjalla ég í góðu og rólegheitunum við dómarana um upplifuna þeirra á brotinu og segi þeim mína. Þar kemur á daginn að annar þeirra sá ekkert og hinn sagðist hafa séð útrétta hendi og haus kastast til hliðanna. En var ekki viss hver átti hendina," skrifar Rúnar.

Rúnar segir að HSÍ sé ekki vant að dæma leikmenn í bann, sökum þess var honum brugðið. „Ég er síðan fullvissaður um það að í ljósi þess að ég sé ekki með nein rauð spjöld á bakinu og sjaldan gefin leikbönn að ég muni aldrei fara í bann. Þegar ég síðan fæ bann og öllum til mikillar furðu þá fást þau svör hjá HSÍ að erfitt sé að sjá á videoi hvort ég fari í andlit eða hvort hnefi eða opinn lófi sé á lofti en eftir stendur skýrsla dómara að leikmaður 5 slái leikmann 4 í andlitið. Í þessu öllu saman sér enginn neitt sérstaklega vel hvað gerist, hvorki dómarar né aganefnd en í ljósi afleiðingana að leikmaður liggur sárkvalinn(sem hann var ekki, hann sagði mér það sjálfur) þá giska menn bara á það versta og veita mér eins leiks bann og ég telst víst heppinn að hafa sloppið með einn leik," skrifar vonsvikinn Rúnar.

Rúnar segir að dómurinn sé kveðinn upp út frá því sem menn halda en staðreyndum. „Menn giska á að allt hið versta frá mér, það finnst mér ömurlegt, mér líður illa með það og það finnst mér gríðarlega óréttlátt," skrifar Rúnar að endingu.