Rúnar Alex Rúnarsson, landsliðsmarkvörður í knattspyrnu, stendur á milli stanganna hjá Arsenal þegar liðið fær írska liðið Dundalk í heimsókn á Emirates í annarri umferð í riðlakeppni Evrópudeildarinnar í kvöld.

Rúnar Alex sem gekk til liðs við Arsenal frá franska félaginu Dijon í byrjun þessa mánaðar er að leika sinn fyrsta leik fyrir Skytturnar.

Þessi 25 ára gamli leikmaður verður þar af leiðandi fjórði Íslendingurinn til þess að spila fyrir aðallið Arsenal.

Áður höfðu Albert Guðmundsson, Sigurður Jónsson og Ólafur Ingi Skúlason gert það.