Enskir fjölmiðlar og samfélagsmiðlar segja að Rúnar Alex Rúnarsson, landsliðsmarkvörður í knattspyrnu, sé á leið til enska úrvalsdeildarfélagsins Arsenal.

Rúnar Alex sem er á mála hjá franska efstudeildarliðinu Dijon er sagður á leið til Lundúna í dag þar sem hann mun undirgangast læknisskoðun hjá Arsenal.

Hjá Arsenal mun Rúnar Alex fylla skarð Emiliano Martinez sem er á leið til Aston Villa.

Það er að undirlagi markmannsþjálfarans Inaki Cana sem vann með Rúnari Alex hjá danska liðinu Nordsjælland sem íslenski landsliðsmarkvörðurinn komst á radarinn hjá Arsenal.

Talið er að kaupverðið á þessum 25 ára gamla markmanni verði um það bil 1,5 milljónir punda.