Búist er við því að enska knattspyrnufélagið muni loksins staðfesta kaup sín á íslenska landsliðsmarkverðinum Rúnari Alexi Rúnarssyni síðar í dag. Rúnar Alex kom til London á föstudaginn var þar sem sem hann stóðst læknisskoðun.

Hann hefur svo um helgina æft með Arsenal og fyrsti leikur hans fyrir félagið gæti verið þegar liðið leikur við Leicester City í enska deildabikarnum á miðvikudaginn kemur.

Þessi 25 ára gamli markmaður kemur til Arsenal frá franska liðinu Dijon þar sem hann hefur leikið frá árinu 2018. Þar áður spilaði Rúnar Alex með uppeldisfélagi sínu, KR, og síðar danska liðinu Nordsjælland.

Rúnar Alex er ætla að fylla skarð Emiliano Martinez sem gekk til liðs við Aston Villa í síðustu viku. Talið er að Arsenal muni einnig bæta David Raya, markverði Brentford, inn í markmannsteymi sitt áður en lokað verður fyrir félagaskipti í október.