Íslenski landsliðsmarkvörðurinn Rúnar Alex Rúnarsson fékk verðuga samkeppni í markvarðateymi Arsenal í gær, þegar Skytturnar fengu ástralska landsliðsmarkmanninn Matthew Ryan á láni frá Brighton. Það gefur til kynna að Rúnar gæti fengið að fara frá Arsenal á láni í stuttan tíma, eins og enskir fjölmiðlar greindu frá.

Rúnar sem kom til Arsenal síðasta sumar hefur komið við sögu í fimm leikjum í deildarbikar og Evrópudeildinni. Slæm mistök hans gegn Manchester City reyndust afdrifarík og vöktu ekki mikla gleði hjá stuðningsmönnum Arsenal.

Ryan þekkir vel til á Englandi eftir að hafa leikið 121 leik í efstu deild með Brighton en þessi 28 ára gamli markvörður lék um tíma með Eiði Smára Guðjohnsen hjá Club Brugge í Belgíu.