Júlían J.K. Jóhannsson bætti um síðustu helgi eigið heims­met í réttstöðulyftu þegar hann varð Íslandsmeistari í +120 kg flokki í greininni. Júlí­an lyfti 409 kíló­um og bætti því metið um þrjú og hálft kíló.Þar sem lyftan var ekki framkvæmd á alþjóðlegu móti verður heimsmetið ekki gert opinbert en Júlían á hins vegar opinbera metið í réttstöðulyftu. Það met setti Júlían á heims­meist­ara­mót­inu í kraft­lyft­ing­um sem fram fór í Dúbaí í nóv­em­ber 2019 með því að lyfta 405,5 kíló­um.

„Það var fyrst og framst alveg yndislegt að komast í keppnisham og hitta alla andstæðinga mína loksins á móti. Á keppnisstaðnum myndaðist frábær stemming þegar mótið fór fram og það var ljóst að það var mikil spenna hjá kraftlyftingafólki að keppa á nýjan leik eftir erfiða mánuði. Mér þótti svo vænt um að setja þetta met með konuna mína, barnið og nána vini í salnum.Það má segja að það hafi verið lán í óláni að mótahald hafi fallið niður á þeim tíma þegar ég var nýbakaður faðir. Það gerði það að verkum að ég gat varið meiri tíma með nýfæddum syni mínum en ella hefði verið mögulegt vegna ferðalaga vegna mótanna,“ segir Júlían.

„Ég kem bara vel út úr pásunni sem gerð var vegna kórónaveirunnar. Það er hins vegar mjög skrýtið fyrir mig að æfa án þess að hafa neinn fastan punkt fyrir framan mig. Í venjulegu árferði er æfingaálagið þrepaskipt þar sem markmiðið er að toppa í þyngdum á einhverjum tímapunkti,“ segir hann um síðustu mánuði hjá sér.

„Þar sem engin mót hafa farið fram á árinu hef ég aftur á móti breytt upplegginu á æfingum hjá mér. Ég stytti æfingarnar og fjölgaði þeim þess í stað. Það gerði ég aðallega þar sem það var erfitt að gíra sig upp í langar æfingar einn í æfingasalnum,“ segir íþróttamaður ársins. „Þegar mót eru fram undan er æfingaplanið vanalega þannig að fyrst um sinn lyfti ég létt með mörgum endurtekningum og færi mig svo yfir í meiri þyngd í færri skipti þegar nær dregur móti. Það má í raun segja að ég hafi verið staddur í löngum millikafla síðustu vikurnar,“ segir Júlían.

„Næsta verkefni hjá mér er Íslandsmeistaramótshelgi sem fram fer í september næstkomandi og þar á eftir er svo heimsmeistaramótið á dagskrá í nóvember. Það er góð tilfinning að vera kominn með fast land undir fætur og geta skipulagt æfingar miðað við það að hámarka árangurinn í haust,“ segir þessi metnaðarfulli kraftlyftingamaður.

„Ég mun breyta uppkeyrslunni á næstu vikum yfir í hefðbundið æfingaform fyrir mót. Það var gott að sjá hvar ég stend um síðustu helgi og gaman að sjá í hversu góðu formi ég er líkamlega eftir erfiða mánuði andlega.Með betri uppkeyrslu í æfingum hjá mér tel ég góðar líkur á að ég gæti bætt mig enn frekar næsta haust. Mér finnst ég eiga nóg inni og stefni á að bæta heimsmetið aftur í komandi mótum,“ segir þessi öflugi íþróttamaður um framhaldið.