Enski knattspyrnumaðurinn Ross Barkley hefur gengið til liðs við Aston Villa en hann kemur til liðsins sem lánsmaður frá Chelsea þar sem hann var fallinn aftarlega í goggunarröðina hjá Frank Lampard.

Barkley er fimmti leikmaðurinn sem Dean Smith fær til liðs við sig hjá Aston Villa í sumar og haust en áður höfðu markvörðurinn Emilian Martinez, hægri bakvörðurinn Matty Cash og framherjarnir Ollie Watkins og Bertrand Traoré bæst við leikmannahóp liðsins.

Aston Villa hefur farið vel af stað í ensku úrvalsdeildinni á nýhafinni leiktíð en liðið hefur haft betur gegn Sheffield United og Fulhum í fyrstu tveimur leikjum sínum í deildinni.

Þá er liðið komið í 16 liða úrslit enska deildabikarsins eftir sigra á móti Burton Albion og Bristol City. Þar mun Aston Villa mæta Stoke City annað kvöld. Næsti deildarleikur Aston Villa er svo gegn Liverpool á Villa Park á sunnudaginn kemur.