Coleen Rooney tók sér stöðu í vitnastúkunni í dag í meiðyrðamáli Rebekuh Vardy gegn henni og á einum tímapunkti þurfti hún að tjá sig um erfiða stöðu sem tengdist bæði Vardy sem og Wayne Rooney.

Deilur Rebekuh og Coleen hafa staðið yfir í langan tíma en Rebekah á­kvað að fara með málið fyrir dóm­stóla eftir að Co­leen á­sakaði hana um að leka upp­lýsingum um einka­líf sitt til breska slúður­miðilsins The Sun.

Rooney segir meintan leka hafa látið sér líða berskjaldaðri á sama tíma og vandamál komu upp í hjónabandi hennar við Wayne Rooney, fyrrum leikmann Manchester United sem var henni ótrúr en hann var viðstaddur í dómssalnum í dag þegar Coleen bar vitni.

,,Það kom upp ástand í tengslum við eiginmann minn sem hafði gert eitthvað rangt af sér. Þetta var viðkvæmt ástand og ég vissi ekki hvernig hjónaband okkar kæmi út úr því."

Á þessum tíma segist Coleen hafa búið hjá foreldrum sínum á meðan að hún og Wayne reyndu að vinna í sambandi sínu en málið hafi síðan ratað í slúðurmiðla og þar hafi verið sagt að þau hefðu tekið aftur saman og við fréttina birtist mynd af Wayne með börnum þeirra hjóna. ,,Við vildum ekki að þetta færi út til almennings, við vorum að vinna í hlutunum. Ég var ekki búin að ákveða að okkar vinna væri kominn á þann stað að við værum að taka aftur saman."

Hvaðan kemur lekinn?

Co­leen greindi opin­ber­lega frá á­sökunum sínum í garð Rebekuh Vardy Twitter­færslu í októ­ber árið 2019 þar sem hún sagðist hafa haft grun um að Rebekah hafi verið að leka upp­lýsingum um einka­líf sitt til The Sun.

Roon­ey fylgdist náið með Insta­gram reikningi sínum og setti inn efni sem að­eins vinir og vanda­menn fengu að­gang að, þar með talið Rebekah Var­dy. Hún segist smám saman hafa fækkað í þeim hópi sem sá efnið sem hún setti inn þar til að Rebekah Var­dy stóð ein eftir.