Fimmti dagurinn í meiðyrðamáli Rebekuh Vardy gegn Coleen Rooney fór fram í dag og Rooney tók sér stöðu í vitnastúkunni þar sem að verjanda Vardy, Hugh Tomlinson gafst tækifæri á að spyrja hana spjörunum úr. Rooney sagði meðal annars frá atvikinu sem fullvissaði hana um að Vardy væri sú sem hefði lekið upplýsingum um einkalíf Rooney-fjölskyldunnar í slúðurmiðla.
Coleen greindi opinberlega frá ásökunum sínum í garð Rebekuh Vardy Twitterfærslu í október árið 2019 þar sem hún sagðist hafa haft grun um að Rebekah hafi verið að leka upplýsingum um einkalíf sitt til The Sun.
Rooney fylgdist náið með Instagram reikningi sínum og setti inn efni sem aðeins vinir og vandamenn fengu aðgang að, þar með talið Rebekah Vardy. Hún segist smám saman hafa fækkað í þeim hópi sem sá efnið sem hún setti inn þar til að Rebekah Vardy stóð ein eftir.
Atvikið sem fullvissaði Rooney um að Vardy væri uppspretta lekans kom í tengslum við eina gervifærsluna sem hún setti inn á Instagram og tengdist leka í kjallaranum á húsi fjölskyldunnar.
,,Það var gervifærsla, það kom ekki upp leki í kjallaranum hjá okkur," sagði Rooney í dómssal í morgun en stuttu eftir færsluna setti hún inn aðra færslu sem innihélt skilaboð til Rebekuh.
,,Ekki spila leiki með stelpu sem er betri spilari," stóð í skilaboðunum en aðspurð að því af hverju hún hafi ákveðið að koma þessum skilaboðum á framfæri sagði Rooney: ,,Mér leið eins og ég hefði fundið út hver var á bakvið lekann."