Wayne Rooney var spurður út í það hvort liðið hann vonaðist til þess að myndi hafa betur í titilbaráttunni í ensku úrvalsdeildinni þar sem hann sagði af tvennu illa væri skárra að Manchester City myndi endurheimta titilinn.

Rooney getur fylgst með baráttunni í ensku úrvalsdeildinni frá Bandaríkjunum þar sem hann leikur með DC United. Hann lék lengst af með Manchester United á ferlinum eftir að hafa komið upp úr unglingastarfi Everton og á því eflaust erfitt með að horfa á deildina þessa dagana.

Liverpool er með tveggja stiga forskot á Manchester City en City á leik til góða á Bítlaborgarmenn. Það stefnir allt í að liðin muni berjast til síðasta blóðdropa um meistaratitilinn.

„Það er frábært að vera hérna þegar þessi lið eru að berjast um titilinn. Ég vona að Manchester City verji titilinn frekar en Liverpool. Sem stuðningsmaður Everton ræð ég ekki við það að sjá Liverpool vinna titilinn,“ sagði Rooney og hélt áfram:

„Fjórtán árum síðar eru stuðningsmenn Liverpool ennþá að tala um Meistaradeildartitilinn frá 2005. Þeir myndu tala um þetta næstu 10-15 árin.“