Wayne Rooney, fyrrverandi landsliðsmaður Englands í knattspyrnu, hefur lagt knattspyrnuskóna endanlega á hilluna.

Þar með lýkur knattspyrnuferlinum hjá þessum 35 ára gamla fyrrverandi leikmanni Everton, Manchester United og DC United en hann er markahæsti leikmaður í sögu Manchester United og enska landsliðsins.

Rooney sem hefur stýrt enska B-deildarliðinu Derby County frá því í nóvember síðastliðnum hefur verið ráðinn knattspyrnustjóri liðsins.

Samningur hans við félagið gildir til ársins 2023 en Derby County er eins og sakir standa í 22. sæti B-deildarinnar með 19 stig.

Eigendaskipti eru í farvatninu hjá Derby County en Mel Morris er núverandi eigandi félagsins og Sheikh Khaled er tilvonandi meirihlutaeigandi.

„Þrátt fyrir önnur tilboð á þeim tíma sem ég kom aftur til Bretlands þá vissi ég að Derby County væri rétti staðurinn fyrir mig. Mér leist vel á æfingasvæðið, leikmannahópinn og svo auðvitað þann þétta kjarna stuðningsmanna sem styður félagið,“ sagði Rooney í kjölfar þess að tilkynning um fyrrgreinda ákvörðun var opinberuð.