Eftir fundi með for­ráða­mönnum Manchester United er Cristiano Ron­aldo, leik­maður fé­lagsins enn á sömu skoðun. Hann vill yfir­gefa Manchester United og ganga til liðs við fé­lag sem getur veitt honum leiki í Meistara­deild Evrópu. The At­hletic kafar í dag að­eins dýpra í þær á­stæður en ljóst er að Manchester United vill ekki missa leik­manninn, sem á eitt ár eftir af samningi sínum, frá sér.

Ein aðal­á­stæða Ron­aldo fyrir því að vilja ganga til liðs við fé­lag í Meistara­deild Evrópu er aug­ljós­lega að spila í deild þeirra bestu. Hins vegar horfir Ron­aldo einnig hýru auga á marka­met sitt í keppninni sem stendur í 140 mörkum, 15 mörkum meira en aðal keppi­nautur hans Lionel Messi.

Ron­aldo vill gera sitt til þess að festa marka­met sitt í sessi, reyna koma í veg fyrir að Messi geti nokkurtímann bætt það en Messi er tveimur árum yngri en Ron­aldo og er leik­maður Paris Saint-Germain sem spilar í Meistara­deildinni á komandi tíma­bili.

Í greiningu The At­hletic segir einnig að annað met komi við sögu í þessum vanga­veltum Ron­aldos. Messi á þessa stundina metið yfir flest mörk skoruð í riðla­keppni deildarinnar á heildina litið. Messi hefur skorað 76 mörk í riðla­keppninni á sínum ferli, þremur mörkum meira en Ron­aldo.

Þá segir í frétt The At­hletic að löngun til þess að vinna titla sem og fjöl­skyldu­legar á­stæður búi að baki þessari löngun Ron­aldos til að yfir­gefa her­búðir Manchester United.