Cristiano Ronaldo sleppur við leikbann fyrir ósæmilega hegðun þegar hann greip um hreðjar sínar eftir að hafa skorað sigurmark Juventus í einvígi liðsins gegn Atletico Madrid á dögunum.

Aganefnd UEFA ákvað að kæra Ronaldo fyrir atvikið og tók málið fyrir í dag. Hann slapp með sekt upp á tuttugu þúsund evrur.

Með fagninu var Ronaldo að skjóta léttum skotum á Diego Simeone, knattspyrnustjóra Atletico Madrid sem fagnaði á sama hátt eftir annað mark Atletico í fyrri leik liðanna.

Þar var Simeone að ýja að því að hans menn væru með hreðjar og var hann, líkt og Ronaldo sektaður en slapp við leikbann.