Gengi karlaliðs Man­chester United í fótbolta hefur ekki verið upp á marga fiska frá því um miðjan september síðastliðinn. Það má segja að tap liðsins gegn Young Boys í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu hafi verið upphafið á slæmum kafla hjá liðinu.Manchester United kom reyndar til baka í næsta leik og lagði West Ham að velli í ensku úrvalsdeildinni en þar á eftir fylgdi tap gegn Hömrunum í enska deildarbikarnum.

Þá hafa lærisveinar Ole Gunnar Solskjær náð í eitt stig í síðustu þremur deildarleikjum sínum og myllumerkið #Oleout var áberandi á samfélagsmiðlum eftir tapið gegn Leicester City um síðustu helgi.Upp er svo komin umræða um að stuðningsmenn Manchester United ætli að stofna til mótmæla um næstu helgi þegar liðið mætir erkifjandanum, Liverpool, í deildarleik á Old Trafford.

Á síðasta tímabili urðu mótmæli stuðningsmanna til þess að leik liðanna í deildinni, sem átti að fara fram á heimavelli Manchester United, var frestað. Þeim mótmælum var bæði beint að árangri liðsins en þó aðallega að stjórnarháttum Glazier-fjölskyldunnar.Sigur gegn Villarreal í annarri umferð í riðlakeppni Meistaradeildarinnar kom liðinu af stað í þeirri keppni en Rauðu djöflarnir fá Atalanta í heimsókn á Old Trafford í lykilleik um framhaldið í riðlinum.

Sparkspekingarnir Gary Neville og Jamie Carragher fóru yfir vandamál Manchester United í Monday Night Football á Skysports á mánudaginn.

„Það er mikið pláss á milli fremstu leikmanna liðsins, miðjunnar og svo varnarlínunnar sem auðvelt er að spila í gegnum. Þetta gerir varnarlínuna berskjaldaða og hún á í erfiðleikum með að verjast hröðum sóknum. Þá var varnarleikurinn barnalegur og viðbrögðin við því að fá á sig mark óþroskuð,“ segir Neville.

„Pressan er ekki vel framkvæmd, það er engin áræðni í varnarleiknum og leikmenn gera sig seka um að labba um völlinn þegar þeir verjast og sækja. Það er mikill munur á því að sjá leikmenn Manchester United verjast og sækja og Liverpool og Manchester City þar sem allt er gert af fullum krafti,“ segir fyrrverandi bakvörður Manchester United.

Pogba að spila út úr stöðu

Jamie Carragher telur að koma Cristiano Ronaldo hafi reynst Manchester United bjarnargreiði. Það geri það að verkum að Paul Pogba þurfi að spila aftar á vellinum sem henti Frakkanum afar illa.

„Þú getur ekki spilað með fimm sóknarþenkjandi leikmenn í einu og mér finnst það fullreynt að láta Paul Pogba og Bruno Fernandes spila saman á miðri miðjunni.

Pogba er að spila aftar en hann gerði á síðasta tímabili vegna tilkomu Ronaldo og það hentar liðinu illa. Það er ójafnvægi í liðinu og mér finnst það henta betur að hafa Pogba framarlega vinstra megin á vellinum, bæði varnarlega og sóknarlega. Pogba er ekki nógu agaður leikmaður til þess að spila á miðri miðjunni að mínu mati.

Þó svo að Manchester United hafi borið sigur úr býtum í þremur af þeim fjórum leikjum þar sem Pogba hefur verið miðsvæðis finnst mér veikleikarnir skína í gegn þegar hann spilar þar,“ segir fyrrverandi varnarmaður Liverpool.

„Að spila með Scott McTominay og Fred inni á miðjunni eða Nemanja Matic og Fred þar er hins vegar heldur ekki lausnin, við höfum séð það. Það vantar hágæða miðjumann í þetta lið,“ segir Neville.

Sveiflukennd frammistaða

Halldór Marteinsson, einn af ritstjórum stuðningsmannasíðunnar Rauðu djöflanna og gallharður stuðningsmaður Manchester United, er skiljanlega ekki sáttur við gang mála hjá liðinu þessa stundina.

„Eftir afskaplega fínan sumarglugga og verulega flottan fyrsta leik gegn Leeds United þá var auðvelt að missa sig í stemningunni fyrir Manchester United en sú gleði var því miður skammlíf.Liðið hefur sýnt glefsur af flottri spilamennsku en aldrei almennilega náð að tengja það saman í lengri tíma innan leikja.

Síðustu sjö leikir hafa svo verið hrikalega slappir. Það er alltaf óásættanlegt að tapa fjórum leikjum af sjö hjá Manchester United. Þessir tveir sigurleikir sem þó hafa komið hafa líka verið ósannfærandi þar sem í annað skiptið þurfti að treysta á vítamarkvörslu frá David De Gea til að halda fengnum hlut og hins vegar mark í uppbótartíma.

Ekki er hægt að segja að mótherjarnir hafi verið í hæsta klassa og í næstu átta leikjum er liðið meðal annars að fara að mæta Liverpool, Manchester City, Tottenham og Chelsea. Spili liðið áfram eins gegn þeim þá gæti það endað í algjöru stórslysi. Þetta hafa þó reyndar oft verið leikirnir sem Solskjær gengur hvað best að kortleggja taktískt,“ segir Halldór um síðustu leiki og framhaldið.

„Það eru frábærir leikmenn í þessu liði en það vantar að skapa almennilega liðsheild. Ef stóru póstarnir í liðinu eiga dapran dag þá er ekkert kerfi sem grípur þá, engin hugmyndafræði eða alvöru leikplan sem felur það. Manchester United stendur og fellur með einstaklingsframtaki, í það minnsta í sóknarleiknum.

Þegar svo við bætist að varnarleikurinn er enn að slípast saman þá er þetta ekki nógu gott. Mínir menn Harry Maguire og Luke Shaw eru ekki að eiga jafn gott tímabil og í fyrra og Raphael Varane er enn að koma sér almennilega inn í hlutina. Bjartasti punkturinn til baka hefur verið endurkoma David de Gea sem eins af bestu markmönnum á Englandi.

Harry Maguire átti erfiðan dag í leiknum á móti Leicester City.
Fréttablaðið/Getty

Kannski vantar ákveðna týpu af leikmanni, það er að segja ákveðinn karakter, inn á völlinn til að kveikja betur og reglulegar í hinum. Kannski vantar einfaldlega betri knattspyrnustjóra til að vinna með liðið á æfingasvæðinu og stýra því frá hliðarlínunni.

Solskjær hefur gefið okkur Man­chester United stuðningsmönnum björtustu augnablikin og bestu leikina frá því að Sir Alex Ferguson hætti en það er þó ýmislegt sem hægt er að setja spurningarmerki við hjá honum enn þá.

Solskjær hefur að mörgu leyti staðið sig vel í uppbyggingu á liðinu en fyrir minn smekk hefur hann ekki sýnt nógu vel hvernig hann vill láta liðið spila sem liðsheild. Þess vegna geta slakari lið með góða liðsheild alltof oft náð í úrslit gegn Manchester United,“ segir hann enn fremur.

Vantar betri miðjumann í liðið

„Ef ég gæti stjórnað innkaupum hjá Manchester United í janúar þá væri fyrsta mál á dagskrá að fá inn akkeri á miðjuna. Einhvern sem getur gefið varnarlínunni skjól og öryggi, veitt öðrum miðjumönnum aðhald og ákveðið frelsi en samt líka dreift boltum á skapandi hátt.Ekki væri svo verra ef hann væri líka með drífandi karakter sem smitaði baráttu út frá sér. Ekki auðveld innkaup og þess vegna kæmi mér ekki á óvart þótt það næðist ekki endilega inn í janúar.

Til vara væri áhugavert að fá inn sóknarsinnaðan hægri bakvörð sem kann samt líka að verjast. Wan-Biss­aka er flottur að mörgu leyti en hefur ekki náð að bæta sóknarleikinn eins mikið og ég hefði vonast til,“ segir Halldór um komandi félagaskiptaglugga.