Cristiano Ronaldo, leikmaður Manchester United, segist ekki hafa gengið aftur til liðs við félagið til þess að enda í 6. eða 7. sæti í ensku úrvalsdeildinni. Hann segir Ralf Ragnick, knattspyrnustjóra liðsins hafa breytt mörgu frá komu sinni en segir hann þurfa meiri tíma.

Ronaldo segir það ekki ásættanlegt hjá félagi eins og Manchester United að vera berjast um sæti neðar en efstu þrjú sæti ensku úrvalsdeildarinnar. Manchester United hefur átt slakt tímabil hingað til, liðið situr í 7. sæti ensku úrvalsdeildarinnar um þessar mundir.

,,Ég sætti mig ekki við að hugarfar okkar sé að það sé í lagi að berjast um sæti neðar en efstu þrjú í ensku úrvalsdeildinni. Ég tel að til þess að byggja upp góðan hlut verður maður að eyðileggja sumt. Ég vonast til þess að Manchester United geti komist á það stig sem stuðningsmenn liðsins sætta sig við, þeir eiga það skilið," sagði Ronaldo í viðtali við Sky Sports.

Hann telur núverandi leikmannahóp Manchester United búa yfir getunni til þess að snúa gengi liðsins við. ,,Við getum gert betur. Ég vil ekki vera hérna í 6. eða 7. sæti, ég er hér til að vinna og keppa um titla."

Ronaldo segir Ralf Ragnick, sem tók við sem bráðabirgðastjóri Manchester United á síðasta ári, hafa breytt mörgum hlutum frá komu sinni. ,,Hann hefur breytt mörgu á þessum fimm vikum sem hann hefur verið með okkur en hann þarf tíma til að koma hugmyndum sínum almennilega til skila. Það tekur tíma en ég trúi að hann sé að gera góða hluti."

Hann segir undanfarna mánuði hafa verið erfiða. ,,Við skiptum um knattspyrnustjóra, Ole fór og síðan Carrick, svo kom núverandi knattspyrnustjóri inn. Það er erfitt þegar að breytingarnar eru svona miklar."

,,Þegar að hlutirnir eru ekki að ganga eins og félagið vill, þá verður félagið að gera breytingar. Ég var vonsvikinn (þegar Ole var rekinn) en við þurfum að sýna félaginu skilning, þetta var erfitt en lífið heldur áfram," sagði Cristiano Ronaldo, leikmaður Manchester United í viðtali við Sky Sports.