Portúgalski knattspyrnumaðurinn Cristiano Ronaldo hefur gagnrýnt kerfið sem notað er við skimun við kórónaveirunni en hann er enn í einangrun eftir að hafa greinst með veiruna og missir þar af leiðandi af leik Juventus á móti Barcelona í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu sem fram fer í Tórínó í kvöld.

Þessi 35 ára gamli sóknarmaður hefur verið í einangrun eftir að hann greindist með veiruna í landsliðsverkefni með Portúgal 13. október síðastliðinni. Juventus vildi ekki tjá sig þegar félagið var spurt um það hvort nýjasta sýnið sem tekið var af Ronaldo væri jákvætt eða neikvætt.

Ronaldo sagði hins vegar í Instagram-færslu sinni að hann væri einkennalaus og við góða heilsu. Þar gagnrýndi hann svo PCR prófið sem segir til um hvort einstaklingur sé smitaður af veirunni eður ei. Ronaldo sem spilaði síðast leik þegar hann með portúgalska landsliðinu gegn Frakklandi 11. október átti að mæta Lionel Messi í kvöld í fyrsta skipti síðan árið 2018.