Portúgalski landsliðsmaðurinn í knattspyrnu, Cristiano Ronaldo, mun snúa aftur til Ítalíu í dag þar sem hann mun klára einangrun sína eftir að hafa smitast af kórónaveirunni í landsliðsverkefni með Portúgal.

Ronaldo greindist með kórónaveiruna í gær mun ekki leika með portúgalska liðinu þegar liðið mætir Svíþjóð í kvöld í Þjóðadeildinni.

Talið var í fyrstu að Ronaldo þyrfti að ljúka einangrun sinni á portúgalskri grundu en þessi 35 ára gamli sóknarmaður hefur hins vegar ákveðið að ferðast frá Lissabon til Tórínó í einkaflugvél sinni og verður hann síðan fluttur með sjúkrabíl heim til sín frá flugvellinum.

Hann mun missa af leikjum Juventus gegn Crotone í ítölsku A-deildinni og svo leik ítalska liðsins á móti Dynamo Kiev í fyrstu umferð í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu.

Ronaldo á enn eftir að svara til saka hjá ítölskum yfirvöldum fyrir að hafa ásamt öðrum leikmönnum Juventus yfirgefið æfingabúðir liðsins á meðan liðið átti að vera í sóttkví þar.