Cristiano Ronaldo, sóknarmaður Manchester United og einn besti knattspyrnumaður sögunnar, segist vonast til þess að geta spilað fjögur til fimm ár í viðbót.

Ronaldo er 36 ára gamall og hlaut í gær sérstök verðlaun á verðlaunahátið FIFA fyrir afrek sitt með portúgalska landsliðinu en hann hefur skorað 115 mörk með Portúgal sem er met.

Aðspurður að því á verðlaunahátíðinni hvað framtíðin bæri í skauti sér sagði Ronaldo: ,,Ég er oft spurður að því hversu lengi ég ætla að spila knattspyrnu í viðtbó og ég vonast til að spila í fjögur til fimm ár í viðbót, þetta snýst allt um hugarfarið. Ég ber enn mikla ástríðu fyrir leiknum og að skora mörk, ég hef spilað fótbolta síðan að ég var fimm ára gamall og jafnvel núna þegar að ég stíg inn á völlinn, jafnvel bara á æfingu, hef ég enn metnað til að gera betur."

Ronaldo spilar nú með Manchester United en hann gekk til liðs við félagið á ný í upphafi tímabils frá Juventus.

,,Ég held áfram að leggja hart að mér, ég elska þennan leik og hef ástríðu fyrir honum. Ég vil halda áfram, ef þú hugsar vel um líkama þinn þá mun hann endurgjalda þér það þegar að þú þarft á því að halda," sagði Cristiano Ronaldo, leikmaður Manchester United.

Ronaldo hefur unnið nánast allt sem hægt er að vinna inn á knattspyrnuvellinum. Hann hefur unnið Meistaradeild Evrópu fimm sinnum, orðið deildarmeistari sjö sinnum, bikarmeistari sex sinnum og hefur fimm sinnum verið handhafi gullknattarins. Þá hefur hann einnig orðið Evrópumeistari með Portúgal og mun í nóvember reyna að bæta heimsmeistaratitlinum við í safnið.

Aðspurður að því hvað hafi orðið til þess að hann sé svona sigursæll segir Ronaldo: ,,Fórnir, þú verður að fórna hlutum, án fórna áorkarðu ekki neitt. Ég byrjaði að spila seem atvinnumaður 18 ára gamall og hefur verið á toppi leiksins í 15-16 ár. Ég legg ávallt hart að mér, þess vegna held ég áfram að vera á meðal þeirra bestu hvað frammistöðu, titla, mörk og met varðar. Það mun halda áfram."