Cristiano Ronaldo, leikmaður Manchester United horfði á liðsfélaga sína spila æfingaleik gegn Wrexham sem spilaður var fyrir luktum dyrum á æfingasvæði United í dag.

Mikið hefur verið rætt og ritað um framtíð Ronaldo hjá Manchester United undanfarnar vikur og mánuði. Ronaldo vill fara frá félaginu og mætti í fyrsta skipti í gær á æfingasvæði félagsins á undirbúningstímabilinu.

Ronaldo talaði þá í fyrsta skipti við nýjan knattspyrnustjóra félagsins, Erik ten Hag augliti til auglitis en með Ronaldo í för var umboðsmaður hans Jorge Mendes.

Hann mætti aftur á æfingasvæðið í dag til að fylgjast með æfingaleiknum gegn Wrexham og sá Christian Eriksen, eina af nýjustu viðbótunum við leikmannahóp Manchester United skora sitt fyrsta mark í leik fyrir félagið.

Þá fékk varnarmaðurinn Lisandro Martinez, nýjasta viðbótin við leikmannahóp Manchester United einnig að spreyta sig. Þetta herma heimildir Daily Mail.