Evrópu­mótið í knatt­spyrnu fer fram í 15. sinn í sumar og í til­efni þess er mótið haldið í ellefu mis­munandi löndum. Cristiano Ron­aldo vantar eitt mark til að verða marka­hæsti leik­maður EM frá upp­hafi.

Metið yfir flesta leiki í loka­keppni Evrópu­mótsins og flestar mínútur er þegar í eigu Cristianos Ron­aldo en það eru fleiri met innan seilingar á mótinu sem hefst í dag. Í dag er hann jafn Michael Platini yfir flest mörk í loka­keppni Evrópu­mótsins með níu mörk og má búast við að hann bæti við þann marka­fjölda á næstu vikum og geri metið að sínu eigin.

Hann er fyrir marka­hæsti leik­maðurinn í sögu undan­keppninnar fyrir Evrópu­mótið með 31 mark og um leið marka­hæsti leik­maðurinn ef undan­keppnin og loka­keppnin eru teknar saman.

Ron­aldo var fljótur að láta til sín taka á fyrsta stór­móti sínu með Portúgal á Evrópu­mótinu í heima­landinu árið 2004 þar sem hann skoraði tvö mörk og var valinn í úr­vals­lið mótsins. Hann hefur skorað á öllum fjórum Evrópu­mótunum til þessa og eftir að hafa unnið gull­skóinn sem marka­hæsti leik­maður ítölsku deildarinnar á ný­af­stöðnu tíma­bili má gera ráð fyrir að hann verði á skotskónum með Portúgal sem hefur titil að verja í sumar.

Takist Ron­aldo að skora í sumar verður metið ekki lengur í eigu Platinis. Landi Platini, Antoine Gri­ezmann, gæti einnig náð Platini á næstu vikum með þremur mörkum eftir að hafa skorað sex mörk á síðasta Evrópu­móti en ó­lík­legt er að met Platini yfir flest mörk á einu móti (9) verði nokkurn tímann bætt.

Um leið er Ron­aldo með auga­stað á flestum leikjum í undan­keppni og loka­keppni EM þar sem hann er tveimur leikjum frá leikja­meti Gian­lu­igi Buf­fon og kemur til með að setja nýtt met með því að vera fyrsti leik­maðurinn til að leika í fimm loka­keppnum EM.

Ron­aldo er fyrir einn af átta leik­mönnum sem hefur leikið í fjórum loka­keppnum EM og verður annar leik­maðurinn til að fara í fimm loka­keppnir á eftir Iker Casillas.