Portúgalski landsliðsframherjinn Cristiano Ronaldo hefur staðist læknisskoðun hjá Manchester United en þar með færast félagaskipti hans frá Juventus til fyrrverandi félags hans enn nær.

Manchester United og Juventus tilkynntu það á föstudaginn síðastliðinn að félögin hefðu komist að samkomulagi um kaupverð á Ronaldo sem verður um það bil 20 milljónir punda.

Ronaldo hefur svo samið við kaup og kjör við Manchester United en þessi 36 ára gamli leikmaður gerir tveggja ára samning við enska félagið.

Læknisskoðunin var framkvæmd í Lissabon en Ronaldo er þar staddur í landsliðsverkefni.

„Við erum spenntir fyrir komu Ronaldo og voanndi getum við klárað pappírsvinnuna og kynnt hann til leiks sem allra fyrst. Ronaldo er mikill sigurvegari innan vallar og frábær manneskja utan vallar.

Hann kemur með aðra vídd inn í leik liðsins og bætir sjálfstrausti og trú inn í leikmannahópinn. Ronaldo mun hjálpa okkur í þeirri vegferð sem við erum í þessa stundina," sagði Ole Gunnar Solskjær um nýjasa leikmann sinn eftir 1-0 sigur lærisveina hans gegn Wolves í ensku úrvalsdeildinni í gær.

Ronaldo skoraði 118 mörk í þeim 292 leikjum sem hann spilaði fyrir Manchester United á árunum 2003 til 2009.