Cristiano Ronaldo bar fyrirliðabandið hjá Al-Nassr í fyrsta leik sínum fyrir félagið í gær. Kappinn lék allan leikinn í 1-0 sigri sinna manna á heimavelli gegn Al-Ettifaq.

Al-Nassr vann 1-0 sigur á Al-Ettifaq í gær. Eina mark leiksins skoraði Anderson Talisca á 31. mínútu.

Sem fyrr segir var þetta fyrsti leikur Ronaldo fyrir Al-Nassr. Hann byrjaði á því að taka út tveggja leikja bann sem hann hlaut á Englandi, er hann var enn leikmaður Manchester United. Hann sneri hins vegar aftur í gær.

Ronaldo yfirgaf United fyrir áramót í kjölfar þess að hafa farið í umdeilt viðtal við Piers Morgan. Hann gekk svo til liðs við Al-Nassr í Sádi-Arabíu skömmu síðar.

Al-Nassr er á toppi sádi-arabísku deildarinnar með eins stigs forystu.