Cristiano Ronaldo, leikmaður Manchester United hefur fengið viðvörun frá lögreglunni í Merseyside í Bretlandi eftir atvik sem átti sér stað eftir leik Everton og Manchester United þann 9. apríl síðastliðinn. Manchester United tapaði leiknum en á leið sinni af vellinum braut Ronaldo síma 14 ára einhverfs stráks með því að slá hann úr hendi hans.

Móðir Jacobs ræddi atvikið við staðarmiðilinn Liverpool Echo á sínum tíma: „Ég grét og skalf. Jacob var í algjöru sjokki. Hann er einhverfur svo hann áttaði sig ekki alveg á þessu fyrr en við komum heim. Hann er svo leiður yfir þessu og hann vill ekki fara aftur á leik. Þetta var fyrsti leikurinn sem hann fer á og þetta gerist. Þetta var frábær dagur alveg fram að þessu. Þetta eyðilagði daginn og skilur okkur eftir með óbragð í munni.“

Lögreglan í Merseyside gaf út yfirlýsingu varðandi málið í dag og segir það nú frágengið með viðvörun en einnig er talið að að Ronaldo hafi fallist á að borga skaðabætur til Jacobs.