Vincenzo Spadafora, íþróttamálaráðherra Ítalíu, segir Cristiano Ronaldo, leikmann karlaliðs Juventus í knattspyrnu, hafa gerst brotlegan á reglum um sóttvarnir með því að fljúga frá Lissabon til Tórínó hafi hann ekki fengið leyfi frá heilbrigðisyfirvöldum fyrir ferðalagi sínu.

Ronaldo greindist með kórónuveiruna á meðan hann var í landsliðsverkefni með Portúgal í Lissabon í upphafi þessarar viku. Í stað þess að klára einangrun sína í Lissabon ákvað Ronaldo að ferðast þaðan til Tórínó um miðja vikuna og klára einangrunina þar.

Ferðaðist Ronaldo í einkaflugvél og var ferjaður með sjúkrabíl frá flugvellinum í Tórínó til heimilis síns. Þetta ferðalag krafðist sérstaks leyfis frá ítölskum heilbrigðisyfirvöldum en forráðamenn Juventus segja Ronaldo hafa fengið það.

Ronaldo á enn eftir að fá niðurstöðu í mál sitt þar sem hann er sakaður um að hafa rofið sóttkví með því að hafa ásamt liðsfélögum sínum hjá Juventus yfirgefið æfingabúðir liðsins á dögunum. Ronaldo og samherjar hans gætu átt von á sekt fyrir þá háttsemi sína.