Cristiano Ronaldo, stjörnuleikmaður Manchester United segir mögulegt að hann lyfti lokinu af stöðu sinni hjá félaginu og afhjúpi það sem hann kallar lygar fjölmiðla um sig með viðtali innan nokkurra vikna. Frá þessu greindi hann á samfélagsmiðlinum Instagram í gær.

Sögusagnir síðustu mánaða hafa verið á þann veg að Ronaldo sé ekki sáttur í herbúðum Manchester United, hann vilji komast frá félaginu og spila í Meistaradeild Evrópu.

Sjálfur segist hann, á samfélagsmiðlinum Instagram, sannleikann geta litið dagsins ljós í viðtali sem gæti birst innan nokkurra vikna.

,,Fjölmiðlar segja lygar. Ég er með skrifblokk þar sem ég hef safnað saman 100 fréttum um mig síðustu daga, fimm þeirra eru sannar. Ímyndið ykkur bara hvernig þetta er fyrir mig," skrifaði Ronaldo á Instagram.

Aðeins rúmar tvær vikur eru eftir af félagsskiptaglugganum og nýjustu fréttir, spurning hvort þær fari í falsfréttabanka Ronaldo, herma að forráðamenn félagsins séu farnir að líta öðrum augum á stöðu hans hjá Manchester United. Þeir séu farnir að sjá hvernig þetta óvissuástand í kringum leikmanninn er farið að breiðast með neikvæðum hætti um leikmannahópinn.

Fyrr hefur staða Manchester United verið sú að leikmaðurinn sé ekki til sölu, en það ku hafa breyst núna.

Manchester United hefur tapað fyrstu tveimur leikjum sínum á tímabilinu í ensku úrvalsdeildinni. Gegn Brighton og Brentford.