Ís­lenski at­vinnu­hnefa­leika­kappinn Kol­beinn Kristins­son mun mæta Rodn­ey Moor­e, reynslu­miklum hnefa­leika­kappa þann 8. október næst­komandi á bar­daga­kvöldi sem fer fram í Detroit Brawl í Banda­ríkjunum á vegum Salida Pro­motion. Þetta kemur fram í frétta­til­kynningu frá teymi Gunnars Kol­beins.

Þetta verður fyrsti bar­dagi Kol­beins síðan 17. janúar 2020 en í frétta­til­kynningunni segir að hann hafi nýtt tímann vel, æft 3-4 klst á dag 6 daga vikunnar, bætt sig mikið og er klár í slaginn.

„And­stæðingur Kol­beins er Rodn­ey Moor­e sem er reynslu­mikill boxari og erfiður jour­neyman, en okkar maður stefnir á að klára hann snemma eða eftir 7 mínútur. Þjálfarinn hans Kolla heitir Sugar Hill en hann þjálfar einnig nú­verandi heims­meistara í þunga­vigt, Ty­son Fury sem flestir ættu að þekkja. Sugar Hill er dá­samaður sem einn fremsti þjálfari í heimi og því verður gaman að sjá Kol­bein í hringnum í ágúst. Til gamans má geta að Kol­beinn var í þjálfun hjá Sugar Hill á undan Fury."

Kolbeinn hefur verið duglegur í því að klára sína bardaga með rothöggi
Mynd: Kolbeinn Kristinsson

Hingað til er Kol­beinn ó­sigraður á sínum at­vinnu­manna­ferli með 12 sigra. Af þessum 12 sigrum hafa 6 þeirra endað með rot­höggi en hann stefnir á að breyta þessu i 13 sigra og 7 röt­högg í ágúst.

„Ég er sjúk­lega spenntur að fá loksins að berjast aftur," segir Kol­beinn um komandi bar­daga. „Ég átti að berjast þann 10.júní á Showtime en and­stæðingurinn hætti við og það var ekki nægur tími til að finna annan and­stæðing. Nú þegar það er loksins komið að þessu þá hlakka ég til að setja allt sem ég er búin að vera að vinna í síðustu tvö árin saman og stoppa hann eins fljótt og ég mögu­lega get.”

Kol­beinn hefur stundað hnefa­leika í 15 ár og keppti lengi vel í Olympískum hnefa­leikum, á þar 40 bar­daga að baki og hefur verið okkar fremsti hnefa­leika­kappi í mörg ár á­samt því að vera eini ís­lenski at­vinnu­maðurinn í sportinu.

Kolli eins og hann er kallaður af þeim sem þekkja hann er 34 ára gamall og á tvö börn og unnustu hér á landi og leggur mikið á sig til að vera til staðar fyrir þau á­samt því að stunda at­vinnu­mennskuna. Eftir að hafa ekki fengið að keppa í tvö ár er það kær­komið að fá að stíga í hringinn og gera það sem hann hefur ást­ríðu fyrir:

„Að kýla menn í klessu inni í box­hringnum, þó að flestir sem þekkja Kolla sjá hann sem ró­lyndis­dreng og frá­bæran náunga þá breytist það þegar inn í hringinn er komið," segir í frétta­til­kynningu frá teymi Kol­beins