Spænski landsliðsmaðurinn Rodri er genginn til liðs við Manchester City sem vann ensku úrvalsdeildina í knattspyrnu karla í vor og vann auk þess enska deildabikarinn og ensku bikarkeppnina á síðustu leiktíð.

Rodri sem 23 ára gamall spænskur miðvallarleikmaður kemur til Manchester City frá Atlético Madrid en greint var frá því í gær að enska félagið þyrfti að greiða Madrídarliðinu 63 milljónir punda fyrir hann.

Atlético Madrid keypti Rodri frá Villareal fyrir síðasta keppnistímabil fyrir 25 milljónir evra og er spænska félagið því að græða vel á þessum viðskiptum.

Rodri sem hefur leikið sex leiki fyrir spænska A-landsliðið er ætlað að veita Fernandinho samkeppni um að leika sem djúpur miðjumaður hjá liðinu en hann getur einnig leikið framar á miðsvæðinu.