30 for 30 eru íþróttaþættir sem hafa fengið lof um alla heimsbyggðina enda er þar kafað djúpt í menn og málefni. Nýjasti þátturinn, Rodman: For Better or Worse, var frumsýndur í Los Angeles og kom aðalstjarnan að sjálfsögðu á rauða dregilinn.

Þátturinn telur um 102 mínútur og er þáttur númer 103 í þessum feykilega vinsælu þáttaröð. Sé heimildarmyndin um OJ Simpson talin með þá eru þættirnir 104. NBA þættirnir hafa alltaf þótt gríðarlega vel heppnaðir. Þannig hefur til dæmis Stöð 2 sport sýnt Bad Boys, sögu Detroit Pistons, oftar en góðu hófi gegnir. I Hate Christian Laettner er ekkert minna en snilld, Once Brothers lætur engan ósnortin og Winning Time: Reggie Miller vs. The New York Knicks er ótrúlega skemmtileg.

Gagnrýnendur eru flestir sammála að myndin sé vel heppnuð og leikstjórn Todd Kapostasy sé frumleg og nálgun hans lífleg á líflegt efni. Sem fyrr er kíkt til fortíðar og notast við myndefni frá því í gamla daga. Þá má sjá gamlar NBA hetjur eins og Michael Jordan, Isiah Thomas, David Robinson og þjálfarinn Phil Jackson segir nokkur orð.

Rodman, sem er orðinn 58 ára, var valinn í annari umferð nýliðavalsins árið 1986 af Detroit Pistons. Hann varð meistari í NBA deildinni fimm sinnum á 14 ára ferli. Sjö sinnum var hann frákastakóngur deildarinnar, sjö sinnum í varnarliði ársins, tvisvar sinnum varnarmaður ársins og spilaði tvo stjörnuleiki. Hann spilaði einnig með San Antonio Spurs, Los Angeles Lakers og Dallas Maverics þar sem hann vakti allsstaðar mikla athygli. Hér eru nokkrar góðar myndir frá ferli Rodman.