Norður-Írska kvennalandsliðið í knattspyrnu keppir í kvöld sinn fyrsta leik á stórmóti í knattspyrnu þegar liðið mætir Noregi á St. Mary's leikvanginum í Southampton.

Leikurinn er hluti af Evrópukeppninni sem fór af stað á Englandi í gær með opnunarleik Englands og Austurríkis. Þær Norður-Írsku er skiljanlega mjög spenntar fyrir leik kvöldsins og hafa fengið góðar fréttir í aðdraganda hans.

Það virtist ekki stefna í það við upphaf aldarinnar að Norður-Írland myndi eiga kvennalandslið á stórmóti í knattspyrnu þegar að landsliðið var leist upp.

Kenneth Shiels er þjálfari liðsins
Fréttablaðið/GettyImages

Landsliðið leist upp

Skömmu eftir aldamótin hafði Norður-Írska kvennalandsliðið tapað 9-0 gegn Skotlandi ytra í æfingaleik. Þegar að liðið sneri aftur heim tók forráðamaður írska knattspyrnusambandsins á móti þeim og greindi leikmönnum frá ákvörðun sambandsins um að leisa kvennalandsliðið upp.

Peningurinn sem fór í kvennalandsliðið átti að fara í yngri landslið sambandsins. ,,Við tókum þessu þannig að þeir væru að losa sig við okkur vegna þess að við værum svo lélegar. Þú getur rétt ímyndað þér andrúmsloftið á þessum tíma, ég var bara rétt rúmlega tvítug," sagði Sara Booth, fyrrum fyrirliði Norður-Írska kvennalandsliðsins í samtali við BBC.

Sambandið setti þó á laggirnir undir-19 ára lið Norður Írlands. Lið sem gerði mjög vel árin á eftir en leikmenn þess lið höfðu ekkert A-landslið til að spila fyrir og skiptu því yfir til Írlands.

Ákveðið að reyna á ný

Booth var ein af þeim sem átti frumkvæðið að því að Norður-Írska kvennalandsliðið var endurvakið árið 2004.

Booth og félagar náðu að safna saman styrkjum fyrir liðið. Þá bentu þær á þá staðreynd að ungar norður-írskar knattspyrnukonur væru að skipta yfir til nágrannana á Írlandi.

Það náðist að setja saman kvennalandslið sem var skráð í Algarve-bikarinn árið 2004 og þar með hófst endurreisn kvennalandsliðs Norður-Írlands.

Marissa Callaghan er fyrirliði Norður-Írlands
Fréttablaðið/GettyImages

Mætt á stórmót

Tæpum 18 árum síðar er kvennalandslið Norður-Írlands búið að vinna sér inn sæti á lokamóti Evrópumótsins á Englandi og leikur í kvöld sinn fyrsta leik á lokamóti.

Andstæðingurinn er feiknasterkt lið Noregs en góðar fréttir bárust úr herbúðum Norður-Írlands fyrir leikinn. Fyrirliði liðsins Marissa Callaghan er heil heilsu eftir að hafa glímt við meiðsli á tá síðan í maí.

Callaghan hefur æft með liðinu í vikunni og virðist hafa náð sér af meiðslunum.