Gilbert Burns og Khamzat Chimaev munu mætast í bardagabúrinu á UFC 273 bardagakvöldinu sem fer fram í Jacksonville í Flórída um helgina. Bardaginn er hluti af veltivigtardeild UFC, sömu deild og Gunnar Nelson keppir í og um afar forvitnilegan slag er að ræða fyrir margra hluta sakir.

Khamzat Chimaev er mest spennandi bardagakappinn í UFC um þessar mundir. Hann hefur unnið alla fjóra bardaga sína í UFC til þessa með miklum yfirburðum, klárað þá alla í fyrstu lotu og hefur aðeins verið sleginn einu sinni sem verður að teljast ansi sérstakt.

Chimaev er í 11.sæti styrkleikalista veltivigtardeildarinnar og talið er að hann muni fá tækifæri í titlbardaga fari svo að hann nái að sigra Burns.

Khamzat Chimaev er rísandi stjarna í UFC
GettyImages

Margir Íslendingar kannast við nafnið Gilbert Burns en hann barðist við Gunnar í september árið 2019 og bar sigur úr býtum. Síðan þá hefur Burns gengið vel en hann hefur unnið alla bardaga sína nema titilbardaga við Kamaru Usman sem er ríkjandi veltivigtar meistari.

Þrátt fyrir að vera annar á styrkleikalista veltivigtardeildarinnar er Khamzat Chimaev spáð sigri af veðbönkum og það nokkuð örugglega. Það segir sitthvað um væntingarnar sem áhugafólk um UFC ber til kappans sem hefur heitið því að valta yfir alla andstæðinga sína.

UFC 273 bardagakvöldið fer fram í Jacksonville, Flórída í Bandaríkjunum aðfaranótt sunnudags. Margra augu verða sérstaklega á þessum bardaga þrátt fyrir að tveir titilbardagar séu einnig á kvöldinu, það segir sitthvað um eftirvæntinguna sem áhugafólk um UFC ber til bardagans.