Undanfarin ár hefur skapast töluverður rígur á milli Víkings Reykjavíkur og Breiðabliks í efstu deild karla í knattspyrnu. Liðin kepptu um Íslandsmeistaratitilinn allt til loka í fyrra og í ár eru þau í tveimur efstu sætunum þegar deildinni hefur verið skipt upp.

Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Íslands- og bikarmeistara Víkings, ræddi ríginn sem hefur myndast í sjónvarpsþætti 433.is í gærkvöldi.

„Það er mjög gaman að taka þátt í þessu. Samfélagsmiðlar eru orðnir sterkari og sterkari og allt er pikkað upp úr viðtölum, fyrirsagnir teknar úr samhengi, ég hef ofboðslega gaman að þessu,“ segir Arnar.

Arnar telur að rígurinn geti hjálpað til við að skapa áhuga hjá landanum.

„Mér finnst vera meiri áhugi á leiknum hjá almenningi. Hvort sem það eru þessu að þakka eða ekki, fólk hefur alltaf gaman að ríg.“

Rígurinn á milli Blika og Víkinga er þó byggður á virðingu, að sögn Arnars.

„Það er mikill rígur en ég held það sé líka mikil virðing milli klúbbanna tveggja, þjálfara og leikmanna. Bæði eru að ýta hvoru öðru upp á næsta stig og ef þú sofnar á verðinum eru hinir búnir að taka forskotið.“