Manchester United sendi frá sér tilkynningu í kvöld um að félagið og Cristiano Ronaldo hefðu komist að samkomulagi um að rifta samningi Portúgalans við félagið.

Hann átti hálft ár eftir af samningi sínum hjá United með möguleikanum á eins árs framlengingu en honum er nú frjálst að finna sér nýtt félag þegar janúarglugginn opnar.

Óvíst er hver næstu skref Ronaldo verða. Hann hefur verið orðaður við Bayern Munchen og Inter Miami í bandarísku MLS-deildinni.

Ronaldo sneri aftur til Manchester United á síðasta ári og var markahæsti leikmaður liðsins á síðasta tímabili.

Erik ten Hag sem tók við stjórnartaumunum hjá Manchester United fyrr á þessu ári hefur átt í stormasömu sambandi við Ronaldo sem leysti frá skjóðunni í áhugaverðu viðtali við Piers Morgan í síðustu viku.

Í viðtalinu fór Ronaldo um víðan völl og gagnrýndi flest alla hjá Manchester United án þess að líta í eigin barm.

Portúgalinn sem verður 38 ára á næstu mánuðum lék 54 leiki á rúmu ári hjá Manchester United og skoraði í þeim 27 mörk.