Það var hiti í mannskapnum á hliðarlínunni á Stamford Bridge í gær þegar að Chelsea og Tottenham mættust í ensku úrvalsdeildinni. Það sauð nokkrum sinnum upp úr á milli Thomas Tuchel, knattspyrnustjóra Chelsea og Antonio Conte, knattspyrnustjóra Tottenham og þurfti að ganga á milli þeirra eftir leik.

Leiknum lauk með 2-2 jafntefli en Conte átti mikinn þátt í að æsa mannskapinn upp eftir að Tottenham jafnaði leikinn í stöðunni 1-0 fyrir Chelsea með því að fagna fyrir framan og alveg í andlitinu á þjálfarateymi Chelsea.

Chelsea komst tvisvar yfir í leiknum en áður en flautað var til leiksloka náðu gestirnir að pota inn jöfnunarmarki í uppbótartíma venjulegs leiktíma og því fóru leikar 2-2.

Þá lenti knattspyrnustjórunum aftur saman eftir leik en handaband þeirra reyndist heldur spennuþrungnara en gert hafði verið ráð fyrir. Þeirra viðskiptum eftir leik hefur nú verið breytt í dansatriði í anda Dancing With The Stars raunveruleikaþættinum og nýtur myndbandið mikilla vinsælda á samfélagsmiðlum um þessar mundir.