Forseti Indónesíu, Joko Widodo tilkynnti í dag að Kanjuruhan leikvangurinn þar sem 130 létust í troðningi eftir knattspyrnuleik á dögunum verði rifinn og að nýr völlur yrði reistur á sama stað.

„Kanjuruhan leikvangurinn verður rifinn og annar leikvangur byggður sem stenst öryggisstaðla Alþjóðaknattspyrnusambandsins," sagði Widodo við fjölmiðla í Indónesíu.

Um er að ræða næst mannskæðasta íþróttaslys sögunnar og það versta í tæplega fimm áratugi. Eftir að leiknum lauk brutust út óeirðir og notaðist lögreglan við táragas til að reyna að halda aftur af hópi fólksins.

Við það myndaðist troðningur og létust fjölmargir þegar þeir urðu undir í troðningnum á meðan aðrir létust úr köfnun.

Rannsókn á atburðinum leiddi í ljós að það voru of margir stuðningsmenn á vellinum, útgönguleiðum var lokað og að deildin eigi sinn þátt í slysinu hræðilega með því að krefjast að leikurinn færi fram að kvöldi til í von um að fá meiri athygli.

Athygli vakti að það var búið að eyða sönnunargögnum.