Í fyrsta sinn verður keppt í deildarkeppni í glímu um helgina þegar Unbroken-deildin í uppgjafarglímu fer fram í húsnæði Mjölnis. Mótsstjóri segir íþróttagreinina í stöðugum vexti.
Tæplega hundrað keppendur eru skráðir til leiks þegar fyrsta deildarkeppnin í uppgjafarglímu á Íslandi fer fram um helgina.
„Það er búin að vera mikil spenna í glímusamfélaginu frá því að við tilkynntum þetta seint á síðasta ári. Maður sá það strax á mætingunni að fólk fór alveg á fullt og það kom mikill keppnisgír í fólk til að koma sér í stand fyrir fyrstu helgina,“ segir Pétur Marinó Jónsson hjá Mjölni sem er mótsstjóri Unbroken-deildarinnar.
„Maður heyrir af því sama hjá öðrum klúbbum, að það hafi strax verið mikil spenna fyrir þessu. Það hefur mikill uppgangur átt sér stað í glímunni síðastliðin ár og það var þörf á fleiri mótum.“

Uppgjafarglíma, eða brasilískt jiu jitsu, gengur út á að ná andstæðingnum í hengingu eða lás og fá hann til að gefast upp. Ólíkt hefðbundnu jiu jitsu eru þátttakendur ekki í búningi. Þetta er því ekki skylt þjóðaríþrótt Íslendinga, glímu, en Pétur segir Íslendinga heillast af átökunum.
„Þó að þetta sé gjörólíkt íslenskri glímu þá eru þetta átök sem heilla marga. Þetta er svolítið eins og að fara í gamnislag með tækni og þegar þú ert búinn að prófa þetta og kynnast þessu er þetta ávanabindandi, bæði í æfingum og keppnum.“
Fjölbreytt flóra keppenda
Pétur segir að það sé fjölbreytt flóra af þátttakendum í ár. „Við skiptum þessu upp í byrjendadeild og úrvalsdeild eftir reynslu keppenda og það er breitt aldursbil. Þetta er alveg frá sextán ára aldri upp í tæplega fimmtugt.“
Deildarkeppnin fer fram yfir þrjár helgar í vetur og í upphafi sumars verður úrslitakvöld þar sem von er á erlendum gestum. Hann viðurkennir að það hafi verið snúið að útfæra deildarkeppni í glímu.
„Þetta var smá snúið. Við vildum tryggja að aðilar fengju sem flestar glímur en við vorum ekki með neina erlenda fyrirmynd. Þetta er tilraun og mikil handavinna að baki við að raða glímunum og sjá til þess að einstaklingar mætist ekki oft. Þetta gengur mjög vel og við erum spenntir að sjá hvernig þetta fer fram. Það stefnir í 160 glímur á morgun, sem er ansi mikið, en við erum með fjóra velli til að keppa á,“ segir Pétur og heldur áfram:
„Það er núna tímabil fram undan og ég held að þetta geti orðið lyftistöng fyrir íþróttina að hafa þessa gulrót, fleiri mót og keppnir. Maður finnur það á andanum hjá félögunum.“