Daniel Ricciardo, ökumaður Formúlu 1 liðs McLaren þvertekur fyrir orðróma þess efnis að hann sé á förum úr Formúlu 1. Hann ætlar að standa við samninginn sem hann gerði við liðið og gildir út næsta tímabil.

,,Það hafa verið margir orðrómar á kreiki um framtíð mína í Formúlu 1 en ég vil að þið heyrið þetta beint frá mér," skrifar Ricciardo í færslu sem birtist á samfélagsmiðlum fyrr í dag.

,,Ég er bundinn McLaren út næsta tímabil og er ekki að fara labba frá mótaröðinni. Ég veit að þetta hefur ekki alltaf verið auðvelt en þetta á heldur ekki að vera það."

Ricciardo segist vera að vinna baki brotnu að því að bæta frammistöðu sína og liðsins. ,,Ég vil þetta enn meira en allt annað."

Þrálátir orðrómar

Þeir hafa verið þrálátir og urðu sífellt háværari orðrómarnir í kringum Formúlu 1 lið McLaren þess efnis um að breytingar verði á ökumannsskipan liðsins fyrir næsta tímabil. Reynsluakstur IndyCar ökumannsins Colton Herta fyrir liðið í Portúgal þessa dagana slökkti að minnsta kosti ekki í þeim orðrómum.

Andrew Benson, blaðamaður BBC henti því fram í gær að raunverulegur möguleiki sé á því að Colton Herta gæti tekið sæti Ricciardo en samningur hans rennur út undir lok ársins 2023 eða á sama tíma og samningur Herta við Andretti Autosport rennur út.