Íslenska kvennalandsliðið undirbýr sig nú af krafti fyrir lokakeppni Evrópumótsins sem fram fer í Englandi í sumar. Það eru þó ekki bara leikmenn sem þurfa að undirbúa sig fyrir átökin innan vallar, heldur eru verkefni starfsfólks utan vallar ansi mörg. Óskar Örn Guðbrandsson, starfsmaður KSÍ, segist finna fyrir því í skipulagningu mótsins að knattspyrna í kvennaflokki sé vaxandi í Evrópu.

„Við finnum það. Við erum með fleira starfsfólk. Reynslan hefur kennt okkur ýmislegt. Staðallinn hefur bara hækkað, bæði hjá UEFA og okkur,“ segir Óskar. Hann starfaði einnig hjá KSÍ þegar kvennalandsliðið fór síðast á stórmót, EM í Hollandi, þá sem fjölmiðlafulltrúi.

Alls eru 27 starfsmenn á vegum Knattspyrnusambands Íslands sem starfa í kringum landsliðið á mótinu. Í þeim hópi eru þjálfarateymið, leikgreinendur, fjölmiðlateymi, kokkur, sjúkrateymi, búningastjórar, öryggistjóri og fleira starfsfólk. Þá mun enska knattspyrnusambandið útvega tvo starfsmenn sem verða til taks fyrir íslenska hópinn meðan hann dvelur á Englandi, auk rútubílstjóra til að sjá til þess að hann komist leiðar sinnar.

Óskar segir góða blöndu af nýju og reynslumeira fólki í hópi starfsmanna í kringum landsliðið á EM. „Þetta er blanda af reynslumiklu og öflugu fólki sem hefur verið í þessu í mörg ár og nýrra fólki sem kemur með nýjar og ferskar hugmyndir. Blandan er svipuð og í leikmannahópnum,“ segir Óskar, en alls eru ellefu leikmenn í íslenska liðinu að fara á sitt fyrsta stórmót, í bland við reynslumeiri leikmenn sem eru vanari stærsta sviðinu.

Langur undirbúningur

Það þarf að horfa til margra þátta, líkt og gistingar, rútuferða og svo framvegis. Alls eru gistinæturnar meðan á Evrópumótinu stendur 650 talsins. Ef allt gengur að óskum verða þær fleiri. Það byggist allt á því hversu langt stelpurnar okkar ná á mótinu.

Undirbúningur KSÍ fyrir mótið hefur tekið langan tíma, enda í mörg horn að líta. „Ég veit ekki hvernig ég á að lýsa því í tíma, dögum eða klukkustundum, en þetta er gríðarlega umfangsmikið,“ segir Óskar.

„Við vorum byrjuð að undirbúa okkur um leið og liðið tryggði sig inn á mótið. En hópurinn sem hefur verið mest í undirbúningnum er búinn að vera frá því í haust. Hann hefur verið í samskiptum við UEFA, enska knattspyrnusambandið og skoðað aðstæður úti í Englandi, bæði hótel og velli,“ sagði hann að lokum.

Tæpar 300 milljónir í boði

Töluverðir fjármunir eru í boði á mótinu en ofan á þær 600 þúsund evrur sem KSÍ fær fyrir það að liðið hafi komist inn á mótið geta ýmiss konar aukagreiðslur bæst við. Fyrir hvern sigur á mótinu fást það sem nemur rúmar 14 milljónir króna. Fyrir jafntefli fæst helmingur af þeirri upphæð. Þá fær KSÍ hátt í 29 milljónir króna í vasann, takist liðinu að komast upp úr sínum riðli. Færi Ísland einnig áfram úr 8 liða úrslitum og í undanúrslit, fengi það hátt í 45 milljónir króna og tækist liðinu að komast alla leið í úrslit væri það öruggt með 59 milljónir króna. Fyrir að vinna mótið fást svo um 92 milljónir króna. Þetta þýðir að Evrópumeistararnir munu fá um 292 milljónir króna þegar allt er tekið saman.