Breski tenniskappinn Andy Murray ætlar sér að mæta aftur á Wimbledon-mótið á næsta ári þrátt fyrir vonbrigði í ár.

Murray féll úr leik í annari umferð í gær. Hann laut þá í lægra haldi fyrir Bandaríkjamanninum John Isner.

Murray hefur tvisvar sinnum sigrað Wimbledon, árin 2013 og 2016, en er þó kominn nokkuð yfir sitt besta. Hann er í 52. sæti heimslistans sem stendur.

„Ég hefði getað gert vel hér. Ein af ástæðunum fyrir því að það er mikilvægt að komast ofar á heimslistann er að forðast þá bestu, leikmann eins og þennan, á fyrstu stigum mótsins,“ sagði Murray.

Hann vonast til að snúa aftur að ári. „Ef ég verð góður líkamlega mun ég halda áfram að spila. Það er hins vegar ekki auðvelt að halda líkamanum mínum í standi til að spila á hæsta stigi.“